Stefna Stjórnarráðsins í upplýsinga- og samskiptamálum verður endurskoðuð á næstunni. Þetta kemur fram á vef forsætisráðuneytisins. Nútíminn tók saman lista sem gæti gagnast vel í þessari vinnu.
Á vefnum kemur fram að vinnan eigi að skila almenningi skýrum og aðgengilegum upplýsingum um réttindi sín og skyldur:
Um leið verði leitast við að auka gæði upplýsinga og efla samskipti við almenning með aukinni samvinnu, samhæfingu og skilvirkni innan Stjórnarráðsins. Í því starfi verði horft til framsetningar upplýsinga á vef Stjórnarráðsins og einstakra ráðuneyta og fyrirkomulag almennrar upplýsingagjafar endurskoðað.
Sérstaklega er tekið fram að horft sé til samfélagsmiðla og reynt að ná betur til ungs fólks.
Til að stýra vinnunni hefur Hrannar Pétursson verið ráðinn til forsætisráðuneytisins í tvo mánuði. Hrannar hefur fjölbreytta reynslu af samskipta- og upplýsingamálum, síðast sem framkvæmdastjóri samskiptasviðs hjá Vodafone.
5. Facebook
Forsætisráðuneytið er ekki með sjálfstæða Facebook-síðu. Sigmundur Davíð forsætisráðherra hefur hins vegar átt nokkra góða spretti á samfélagsmiðlinum og sló t.d. í gegn þegar hann birti af sér gamla selfí. Hann mætti þó standa sig betur í að upplýsa almenning um dagleg störf en margir myndu örugglega vilja fræðast betur um hvað felst í því að vera forsætisráðherra. Einnig er mikið svigrúm til að efla samskipti við almenning með aukinni samvinnu, samhæfingu og skilvirkni innan Stjórnarráðsins.
4. Twitter
Til hamingju með frábæran sigur á Grikkjum í fótboltanum Kaj Leo Johannesen og allir Færeyingar! Við gleðjumst með ykkur hér á Íslandi.
— Sigmundur Davíð (@sigmundurdavid) November 14, 2014
Forsætisráðuneytið fær falleinkunn fyrir notkun sína á Twitter. Færslurnar sem birtast þar eru brot úr fréttum af vef ráðuneytisins og engin vinna er lögð í laga textann að miðlinum. Þarna þarf að taka til hendinni. Sigmundur Davíð er nokkuð virkur á Twitter en mætti vera einlægari, ætli hann að ná betur til þjóðar sinnar.
3. Instagram
Hvorki forsætisráðuneytið né Sigmundur Davíð nota Instagram. Miðilinn er eflaust sá vinsælasti á meðal ungs fólks og tækifærin því óteljandi ef forsætisráðherra tileinkar sér notkun hans. Ráðgjafar Sigmundar gætu skoðað hvernig Barack Obama Bandaríkjaforseti notar Instagram til að birta hressar myndir, oftar en ekki af sjálfum sér. Hann hefur hins vegar ekki notað Instagram mikið en er þrátt fyrir það með hátt fjórar milljónir fylgjenda.
2. Snapchat
Þarna erum við komin með samfélagsmiðil sem fáar stofnanir og stjórnmálamenn nota en felur samt í sér endalaus tækifæri. Unga fólkið er á Snapchat. Fyrirtæki eins og t.d. Nova hafa fengið þekkta grínista til að sjá um reikninginn sinn í nokkra daga í senn. Þetta gæti forstætisráðuneytið gert til að kynna fyrir ungu fólki réttindi þess og skyldur. Svo gæti Sigmundur Davíð sýnt gamla takta á bakvið myndavélina.
1. Tinder
Við vitum ekki alveg hvernig Sigmundur Davíð eða forsætisráðuneytið gætu nýtt Tinder — mögulega bara til að fletta í gegnum framtíðarkjósendur og reyna að fá match. Það væri hins vegar forvitnilegt að sjá þau reyna.