Jón Gnarr, grínisti og fyrrverandi borgarstjóri, hefur uppljóstrað á Facebook-síðu sinni, að nýi þátturinn sem hann vinnur að fjalli um borgarstjóra í Reykjavík:
Þessa dagana sit ég við að skrifa nýja íslenska sjónvarpsþætti ásamt góðu fólki. Þetta er tragí-kómísk saga um daglegt líf manns sem er borgarstjóri í Reykjavík.
Nútíminn greindi frá gerð þáttanna á dögunum. Um er að ræða leikna þáttaröð en frekari upplýsingar eru á huldu.
Sigurjón Kjartansson kemur að gerð þáttanna ásamt Baltasar Kormáki, eftir því sem Nútíminn kemst næst.
Í samtali við Vísi á dögunum sagði Magnús Viðar Sigurðsson hjá RVK Studios að það sé ekki langt síðan vinna að þáttunum hófst:
„Það getur tekið níu til fimmtán mánuði að þróa seríu. Stundum tekur það styttri tíma og stundum lengri tíma. Ég get ekki sagt þér hvenær serían verður sýnd.“