Uppfært kl. 15.35: Borgarlögmaður staðfestir á Vísi að húsgögnunum verður fargað.
—
Stólarnir og sófarnir í ráðhúsi Reykjavíkur sem eiga að vera eftirlíkingar fengu óvenjulega meðferð við komuna til landsins á sínum tíma.
Ítalski húsgagnframleiðandinn Cassina hefur farið fram á við Reykjavíkurborg að eftirlíkingum af stólum og sófum eftir franska hönnuðinn Le Corbusier sem er að finna í Ráðhúsi Reykjavíkur verði fargað og frumhönnun verði keypt í staðinn. Verði Reykjavíkurborg ekki við kröfunni mun Cassina fara fram á skaðabætur af hendi borgarinnar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Í frétt DV frá 10. apríl 1992 kemur fram að stólarnir og sófarnir hafi verið sérinnfluttir frá Ítalíu en þaðan er einmitt húsgagnaframleiðandinn Cassina.
Í frétt Fréttablaðsins í morgun segir Alex Colding, svæðisstjóri Cassina á Norðurlöndunum, að frumhönnun sé merkt með raðnúmeri í burðargrind húsgagnanna sem var ekki að finna í stólunum og sófunum í ráðhúsinu.
Það er merkilegt í ljósi þess að afkróma þurfti grindur hluta stólanna í sýrubaði áður en þeim var stillt upp í ráðhúsinu á sínum tíma. Það má því velta fyrir sér hvort raðnúmerin hafi horfið í leiðinni.
Í þessari rúmlega 20 ára gömlu frétt DV kemur fram að samkvæmt útboði á vegum Reykjavíkurborgar áttu grindur stólanna að vera gráar en vegna mistaka kom hluti þeirra til landsins krómhúðaður. Mun þar hafa verið um að kenna handvömm móður hins ítalska framleiðanda:
Ekki reyndist unnt að endursenda hægindin til ítalíu þar sem vígsla ráðhússins fer fram á þriðjudaginn. Til að koma til móts við kröfur Reykjavíkurborgar um lit á hægindunum ákváðu forsvarsmenn Sess að mála nýju hægindin í þeim gráa lit sem útboðið kvað á um. Til að það væri hægt þurfti að afkróma grindurnar í sýrubaði.
Það var húsgagnaverslunin Sess sem flutti stólana og sófana inn en hún varð gjaldþrota ári síðar.