Plötusnúðurinn Óli Geir var afbókaður á skemmtun Samvest í Bolungarvík á dögunum en hefur nú verið bókaður aftur. Ákvörðuninni hefur verið mótmælt.
„Ég er virkilega sár yfir því að mega ekki koma og spila fyrir ykkur, við hefðum skemmt okkur vel saman,“ sagði Óli Geir á Facebook-síðu sinni en getur nú tekið gleði sína á ný. Þetta kemur fram á Vísi.
Benedikt Sigurðsson, rekstraraðili félagsheimilisins í Bolungarvík, segir í yfirlýsingu að hann hafi breytt ákvörðun sinni eftir að hafa fengið mjög sterk og ákveðin viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina Dj Óla Geir að koma og spila á Samvest:
Í ljósi ótal símtala við allskyns fólk hefur ekkert haldbært komið fram sem ætti að eiga rétt á sér að meina meina Óla Geir samvinnu við okkur. Ég hef því ákveðið að halda okkar striki. Dj Óli Geir mun koma til Bolungarvíkur og spila fyrir unglingana okkar og bíðum við mjög spennt, enda einn fremsti og þekktasti plötusnúður landsins.
Benedikt segir einnig að það verði að kenna börnunum að fyrirgefa. „Og að það er allt í lagi að skipta um skoðun, ef sannfæring manns segir manni það. Við getum ekki tekið manneskjur af lífi fyrir sögusagnir.“
Ákvörðunin er umdeild en tómstundafulltrúi Standabyggðar segir að unglingar á Hólmavík muni ekki mæta á Samvest ef Óli Geir spilar.