Um hvað snýst málið?
Fjölmiðlar birtu í gær fréttir um að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi afþakkað boð Frakklandsforseta um að vera viðstaddur samstöðugöngu í París, þar sem milljón manna minntust fórnarlamba voðaverkanna í síðustu viku.
Misskilningurinn virðist hafa orðið til í kjölfar fréttar mbl.is sem hefur nú verið leiðrétt.
Hvað er búið að gerast?
Í fyrstu frétt mbl.is um málið kom fram að Frakklandsforseti hafi boðið Sigmundi að vera viðstaddur athöfnina. Fréttinni var síðan breytt til að endurspegla að ekki var um að ræða persónulegt boð forseta Frakklands til forsætisráðherra, heldur almennt boð.
Sigmundur Davíð birti í gærkvöldi færslu á Facebook þar sem hann leiðrétti fréttaflutning um að hann hafi afþakkað boð Frakklandsforseta:
Það barst raunar ekkert boð frá Frakklandsforseta. Í fyrrakvöld fékk ég hins vegar í hendur bréf frá franska sendiráðinu þar sem þakkað var fyrir stuðning við Frakka og bent á að erlendum gestum sem þess óskuðu byðist að taka þátt í göngunni. Það boð Frakka var heldur ekki afþakkað, þvert á móti var strax farið í að tryggja að fulltrúi mætti fyrir hönd Íslands.
Hver fór fyrir Íslands hönd?
Í tilkynningu á vef forsætisráðuneytisins kemur fram að Nína Björk Jónsdóttir, staðgengill sendiherra Íslands í Frakklandi, hafi verið fulltrúi Íslands í göngunni.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.