Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, dró sér fé í starfi sínu sem sveitarstjóri Ásahrepps. Björgvin lét af störfum sveitarstjóra síðastliðinn föstudag og hóf störf sem annar ritstjóra miðilsins Herðubreiðar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Björgvin hafnar þessum ásökunum í færslu á Facebook sem má sé hér fyrir neðan.
Björgvin hafði til umráða greiðslukort frá sveitarfélaginu sem hann nýtti til persónulegra nota. Egill Sigurðsson, oddviti Ásahrepps, segir upphæðina nema hundruðum þúsunda en sé undir milljón króna.:
Við getum sagt með nokkurri vissu að þetta hafi hafist í októbermánuði í fyrra. Fyrst með litlum greiðslum hér og þar, en vatt upp á sig líkt og snjóbolti sem rúllar niður brekku.
Egill á von á því að málið verið gert upp að fullu um næstu mánaðarmót. Svo virðist sem Björgvin verði ekki kærður til lögreglu.
„Björgvin á inni hjá okkur hálfsmánaðarlaun auk uppsafnaðs orlofs. Því verður skuldajafnað og svo verður staðan tekin í kjölfarið,“ segir Egill í viðtali við Fréttablaðið.
Björgvin var ráðinn sveitarstjóri Ásahrepps í júlí í fyrra og var starfshlutfall hans sjötíu prósent. Alls sótti 21 um stöðuna. Hann var þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi frá 2003 til 2013 og er enn varaþingmaður fyrir flokkinn. Á árunum 2007 til 2009 var hann viðskiptaráðherra.
—
Uppfært kl. 9.08: Björgvin hafnar ásökunum um fjárdrátt.