Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknar og formaður fjárlaganefndar prófaði stefnumótaappið Tinder í gærkvöldi. Þetta kemur fram á Vísi.
Í viðtali á Vísi kemur fram að gamanið hafi verið stutt þar sem hún yfirgaf Tinder-samfélagið skömmu eftir að hún skráði sig til leiks:
Sko, ég var með saumaklúbb í gær og þær voru hjá mér Bifrastarskvísurnar. Og, þetta varð nú bara til hérna í einhverju djóki. Það er alltaf gaman í saumaklúbb. Og það var bara farið þarna inn og út aftur í gær. Ég bauð þeim í mat og svo var farið að spjalla. Ætli þetta verði ekki upplegg í næsta áramótaskaupi?
Tinder er gríðarlega vinsælt á Íslandi. Fólk notar appið til að komast á stefnumót eða stofna til nánari kynna. Í viðtalinu á Vísi virðist Vigdís handviss um að þetta uppátæki hennar verði tekið fyrir í skaupinu, rétt eins og fréttin um hæfni hennar í netleiknum Candy Crush.
„Ég veit ekki hvar Íslendingar væru ef þeir hefðu ekki Vigdísi Hauksdóttir. Landsmenn eru heppnir með það að Reykvíkingar hafa kosið mig á þing í tvígang. Skemmtanagildið er ótvírætt,“ sagði hún á Vísi.