Blaðamaðurinn Jón Júlíus Karlsson veltir upp spurningunni hvort Jón Gnarr hafi í raun verið borgarstjóri Reykjavíkur þegar hann gengdi stöðunni í lokaverkefni sínu til MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.
Sjá einnig: „Ég stóð mig alveg gríðarlega vel“
Niðurstaða ritgerðarinnar er sú að Jón Gnarr hafi verið borgarstjóri Reykjavíkur:
Hann nálgaðist starf borgarstjóra um margt með ólíkum hætti en fyrirrrennarar hans í starfi. Jón Gnarr mótaði embætti borgarstjóra á sinn hátt og færði embættismönnum aukna ábyrgð og völd.
Á meðal viðmælanda Jóns Júlíusar í ritgerðinni er Júlíus Vífill Ingvarsson borgarfulltrúi. Ólíkt öðrum viðmælendum þá telur Júlíus Vífill að Jóni hafi ekki farnast vel í stjórnun borgarinnar.
„Í því sem hann vildi gera, t.d. að fara á opna viðburði sem borgarstjóri, þar stóð hann sig vel og gerði það með þeim hætti sem hann sjálfur vildi gera. Það naut vinsælda hjá mjög mörgum,“ segir Júlíus Vífill í ritgerðinni.
„Ef ég á að líta á störf hans í heild sinni þá náttúrulega skorti þann þátt þessa embættis sem að lítur að stjórn borgarinnar. […] Jón var veikur stjórnmálaleiðtogi, gerði ekki skýrar línur sem rekstrarlegur leiðtogi þar sem embættismenn tóku yfir starfsskyldur hans. Það er enginn sem tekur á rekstrinum á þessum tíma. … Slík stjórnun, eins og var á síðasta kjörtímabili, gengur auðvitað ekki upp.“
Júlíus Vífill telur þó að Jón hafi oft séð hlutina með skemmtilegum og áhugaverðum hætti og segir að hann hafi sinnt borgarstjórastarfinu eins og hann vildi.
„Þarna var hann kominn á stað sem að krafðist einbeitingar og setja sig inn í störf sem snérust ekki beint um hann sjálfan heldur um hag annarra. Ég held að það hafi reynst honum of flókið að gera það, segir hann.
„Hann hlýtur að hafa gert sér grein fyrir að hann gat ekki sinnt starfinu með sama hætti og aðrir höfðu gert fram til þessa. Þess vegna var stjórnkerfinu breytt. Þannig stendur það ennþá. Það kemur svolítið á óvart að Dagur skuli ekki hafa breytt því aftur.“
Lokaverkefni Jóns Júlíusar er áhugavert og má finna hér.