Leikkonan Gwyneth Paltrow lét nýlega hafa eftir sér í pistli á vefnum Goop.com að hún láti skola á sér leggöngin með gufu og vatni. Frétt mbl.is um málið vakti mikla athygli hér á landi en þar var hún sögð láta skola reglulega úr skonsunni.
Paltrow segir í pistlinum að meðferðin hreinsi leggöngin ásamt því að koma jafnvægi á hormónana. Barnalæknirinn Russell Saunders blæs á þetta í pistli sem hann ritar á vefinn Daily Beast.
„Kæru konur. Ekki láta gufuhreinsa í ykkur leggöngin,“ segir Saunders og telur svo upp rök sem mæla gegn þessari meðferð.
Hann byrjar á því að hrekja að leggöng kvenna þurfi sérstaka hreinsun og bendir á að aðferðir til að hreinsa þetta líffæri geti valdið skaða:
Hún er rosalega mikið fyrir allskonar hreinsanir en engar af þessum aðferðum eiga sér vísindalegar stoðir og hvorki nýru þín né lifur þurfa á sérstakri hjálp að halda.
Þá segir hann ekkert benda til þess að þessi meðferð hafi áhrif á hormóna kvenna og segir í raun að það eina sem standist skoðun sé að meðferðin ylji konunum. Loks vitnar hann í skrif læknisins Jennifer Gunter sem segir að gufa sé örugglega ekki góð fyrir leggöng kvenna.
„Ekki gufuhreinsa leggöngin ykkar. Sama hversu oft Gwyneth Paltrow segir ykkur að gera það. Það hefur ekkert upp á sig og mun ekki áorka neinu nema tæma veskið ykkar. Kynfæri ykkar þurfa enga hjálp.“