Huldumaðurinn sem hefur undir höndum gögn um eignir Íslendinga í erlendum skattaskjólum er reiðubúinn til að láta öll gögnin af hendi fyrir 150 milljónir króna, eða 2.500 evrur fyrir hvert mál, en þau eru alls 416 talsins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef efnahags- og fjármálaráðuneytisins en Kjarninn greindi frá.
Sjá einnig: Örskýring um málið
Í tilkynningu kemur fram að ekki sé mögulegt að ganga til samninga um kaup á gögnum þannig að greiðslur verði háðar árangri af nýtingu þeirra.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið taldi rétt, í framhaldi af ábendingu og fundi með fulltrúum frá embætti skattrannsóknarstjóra, að láta reyna á þann möguleika að árangurstengja greiðslur þar sem fram hafði komið að til væru erlend fordæmi um slíkt fyrirkomulag. Ennfremur taldi ráðuneytið að gaumgæfa þyrfti sérstaklega hæfi seljanda.