Forritari fann á dögunum villu sem hefði gert honum kleift að eyða hverri einustu mynd á Facebook. Hann ákvað hins vegar að láta stjórnendur samfélagsmiðilsins vita í stað þess að koma milljónum notenda í tilfinningalegt uppnám.
Notendur Facebook dæla 350 milljón myndum á samfélagsmiðlinum á hverjum einasta degi. Það eru ekki alveg eins margar myndir og fólk deilir á Instagram og Snapchat en Facebook hefur verið til töluvert lengur. Það má því leiða líkur að því að heimsins stærsta gagnagrunn af myndum sé að finna í gagnaverum Mark Zuckerberg og félaga.
Forritarinn Laxman Muthiyah komst á snoðir um villuna en málið er nánar útskýrt á öryggisvefnum Naked Security:
Ég fann leið til að eyða öllum myndunum ykkar. Ég lét öryggisdeild Facebook strax vita og hún var búin að laga villuna aðeins tveimur tímum síðar.
Muthiyah fékk 12.500 dali fyrir að uppgvöta villuna, eða um 1,6 milljónir króna. Í frétt Naked Security kemur fram að hann hefði getað hagnast talsvert betur á villunni með því að láta aðra og óprúttnari aðila fá upplýsingarnar. Þá hefði hann getað eytt öllum myndunum og orðið heimsþekktur sem maðurinn sem rústaði Facebook.
Við kunnum ekki að útskýra hvernig hann fór að þessu en fyrir forritara var það víst ofureinfalt. Það er útskýrt hér.