Kynfæramyndir kynfræðingsins Siggu Daggar snúa aftur í Sköpun, sem er samstarfsverkefni hönnuða sem eru innblásin af myndunum. Sýning tengd verkefninu opnar fimmtudaginn 12. mars í Víkinni sjóminjasafni í tengslum við Hönnunarmars.
Sjá einnig: Kynfæramyndirnar sem kært var fyrir á Selfossi
Myndirnar vöktu talsverða athygli á sínum tíma eftir að Sigga Dögg sýndi þær í fermingarfræðslu á Selfossi. Æskulýðspresturinn var í kjölfarið kærður af fólki sem átti hvorki börn í fræðslunni né var hluti af söfnuðinum. Málið var rannsakað af lögreglunni en að lokum fellt niður.
„Verkin eru annars vegar typpatrefill og litlar buddur og pungar eftir Ýrúrí, landslag og kynfæri í ljósmyndum, grafískar teikningar af kynfærum með húmor og ljósmyndir sem hrista upp í hugmyndum um hvað sé kyn og hvort líkami og kynfæri tengjast,“ segir Sigga.
Spurð hvort hún telji að sýningin fari fyrir brjóstið á fólki eða særi jafnvel blygðunarkennd segir Sigga erfitt að spá fyrir um það.
Særðu kynfæramyndirnar blygðunarkennd? Fólk verður eiginlega bara að koma og sjá og dæmi svo hver fyrir sig.
Á föstudeginum verður boðið upp á píkupopp og ástarpunga. Allar frekari upplýsingar er að finna hér.