Laun bankastjóra Arion banka voru talsvert hærri en laun forstjóra Íslandsbanka í fyrra. Bónusgreiðslur virðast vera komnar á fullt flug í bankakerfinu.
Hagnaður Arion banka á síðasta ári nam 28,7 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 12,7 milljarða króna á árinu 2013. Íslandsbanki hagnaðist hins vegar um 22,8 milljarða króna á síðasta ári. Dregst hagnaðurinn lítillega saman á milli ára, en árið 2013 nam hann 23,1 milljarði króna.
Laun Höskuldar H. Ólafsson, bankastjóra Arion, hækkuðu lítillega á síðasta ári; fóru úr 50,7 milljónum í 52,2 milljónir. Þá fékk hann bónusgreiðslur upp á 6,3 milljónir en engar slíkar voru á árinu á undan. Bónusgreiðslurnar eru fyrir árangur árið 2013.
Mánaðarlaun Höskuldar voru því tæplega 4,4 milljónir á síðasta ári ef bónusarnir eru undaskyldir.
Laun Birnu Einarsdóttur, forstjóra Íslandsbanka, voru 38,6 milljónir á síðasta ári samanborið við 36,4 milljónir árið á undan. Hún fékk 4,8 milljónir í bónusa en 3,6 milljónir árið á undan.
Birna var því með rúmlega 3,2 milljónir á mánuði á síðasta ári fyrir utan bónusa.
Níu framkvæmdastjórar bankans sem eiga sæti í framkvæmdastjórn bankans fengu samtals 24 milljónir í bónusa í fyrra en ekkert árið á undan. Átta framkvæmdastjórar Íslandsbanka fengu svipað, um 22 milljónir samanborið við 18 milljónir árið á undan.
Allt eru þetta upplýsingar úr ársreikningum bankanna sem birtir voru í vikunni. Landsbankinn birtir uppgjör sitt síðar í dag.