Samsung kynnti í dag nýjustu farsímana sína, Galaxy S6 og S6 Edge. Hönnunin þykir ansi lík iPhone 6 símanum frá Apple.
Í ítarlegri umfjöllun um símann á vefnum The Verge kemur fram að ekki sé hægt að neita því að símarnir séu ansi líkir. Brúnirnar á Samsung S6 eru rúnaðar eins og á iPhone 6, sem gerir símana tvo ansi líka.
iPhone 6 er til vinstri á myndinni hér fyrir neðan og nýi síminn frá Samsung til hægri:
Eins og iPhone 6 eru nýju Samsung símarnir úr áli og gleri en eldri símarnir voru úr plasti.
Í símunum er Octacore Samsung Exynos örgjörvi, 3 GB vinnsluminni og þeir fást með 32, 64 eða 128 GB innra minni. 16 MP myndavél með hristivörn er í farsímunum og fingrafaralesari ásamt fleiri nýjungum.
Ólíkt Samsung Galaxy S5 er S6 ekki vatnsheldur en myndavélin á að vera mikið endurbætt.