Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, varar við skaðlegum efnum í kynlífsleikföngum í grein í Morgunblaðinu í dag. Hún segir mikilvægt að fólk sé meðvitað um hvar efni sem eiga að mýkja plast sé að finna þar sem þau geti haft skaðleg áhrif á frjósemi og skaðað fóstur.
„Orðið þalöt ber ekki mikið yfir sér, en þalöt eru efni sem hafa þá eiginleika að mýkja plast. Vegna eiginleika þeirra eru þau vinsæl í iðnaði og m.a. notuð í framleiðslu leikfanga og húsbúnaðar.“
Svona hefst grein Jóhönnu. Hún segir að unnið hafi verið markvisst að því að banna og takmarka notkun þalata til verndar heilsu almennings.
„Notkun þalata hér á landi er ekki mikil en þau geta fundist í innfluttum vörum. Eftirlit með þalötum í innfluttum vörum er gott í dag en mætti vera betra, þá er helst notast við tilkynningar á evrópskum markaði sem og frá nágrannalöndum til að gæta þess að vörur sem innihalda þalöt komist ekki í dreifingu hérlendis,“ segir hún.
Það er mikilvægt að fólk sé meðvitað um hvar þalöt er að finna. Þá geta hjálpartæki ástarlífsins, sem eru misjöfn að gæðum og gerðum, innihaldið þalöt. Sleipiefni og smokkar geta einnig verið úr eða innihaldið mýkt plastefni.
Hú segir að þalöt geti haft skaðleg áhrif á frjósemi bæði hjá körlum og konum. Þá geti þau skaðað fóstur.
„En fóstur og nýfædd börn eru viðkvæmust fyrir þessum efnum. Það er mikilvægt fyrir ungar konur og konur á barneignaraldri að forðast þalöt, því fái þær þalöt í líkama sinn geta þau borist í ófætt barn og skaðað þroska þess,“ segir Jóhanna.
„Það á líka við um lítil börn sem eiga eftir að taka út mikinn þroska, en sem dæmi hafa þalöt fundist í brjóstamjólk.“