Apple var með fjölmiðlakynningu seint í dag þar sem tveir hlutir fengu ómælda athygli. Annars vegar var það ný fartölva og hins vegar snjallúr.
Sjá einnig: Þetta sögðu notendur Twitter um Apple Watch viðburðinn
Á kynningunni var þó fyrst fjallað um þá möguleika sem Apple sér fyrir sér í heilsugeiranum á komandi árum, svokallað ResearchKit. Skynjarar í nýju snjallúrunum og eiginleikar í iPhone munu geta fylgst með þér og greint ýmsa þætti er tengjast heilsufari.
Sem dæmi nefndi Tim Cook forstjóri Apple nýtt app sem er notað til að greina stig Parkinson veikinnar, með því að láta viðkomandi taka einfalt próf á appi í símanum. Apple hefur hafið samstarf við nokkra af stærstu háskólum Bandaríkjanna á sviði heilbrigðisvísinda.
Annað sem við sáum á kynningunni: Ný óeðlilega þunn fartölva
Ný fartölva kemur frá Apple 10. apríl og hefur Macbook nafnið verður endurvakið.
Tölvan er minni og léttari en Macbook Air 11 tommu, þrátt fyrir stærri skjá. Macbook fartölvan verður einungis 13,1 mm á þykkt og 907 grömm. Hún verður með skörpum 12 tommu retina skjá sem þarf 30% minna rafmagn.
Apple þurfti að fórna ýmsu til að ná niður þykkt og verður einungis ein rauf á tölvunni, ásamt heyrnatólstengi. Sú rauf er byggð á USB-C tækninni sem er nýleg og getur sú rauf tekið á móti mörgum tegundum snúra (VGA, USB2, USB3, HDMI og fleira). Þetta er einnig hleðslutengið fyrir tölvuna.
Macbook verður fyrsta fartölvan frá Apple til að koma út í þremur litum: silfur, gráum og gulli. Lögð var áhersla á gull í kynningu Apple, líklega til heilla Kínverja sem eru hrifnir af þeim málmi.
Nánar um fartölvuna á Símon.is.
Verð á Apple Watch kynnt
Það verða þrjár útgáfur af Apple Watch snallúrum: Apple Watch sem er úr ryðfríu stáli, Apple Watch Sport, sem er úr styrktu áli og að lokum Apple Watch Edition sem er úr gulli.
Koma þau öll í tveimur stærðum: 38 mm og 42 mm og kosta sitt. Apple Watch Sport verður sú ódýrasta og mun kosta $349 (minni gerðin) eða $399 (stærri gerðin).
Apple Watch verður frá $549 og að $1049 (minni gerðin) eða frá $599 og að $1099 (stærri gerðin).
Mest hefur verið rætt um verðið á Apple Watch Edition á netinu, enda er sú útgáfa úr gegnheildu gulli. Forstjóri Apple gaf upp áðan að þau myndu kosta frá $10.000, eða rétt undir 1,4 milljón íslenskrar króna. Ódýrasta útgáfan verður þó líklega á 65-80 þúsund krónur hér á landi.