Um hvað snýst málið?
Kastljós Sjónvarpsins sagði frá því að kostnaður ríkisins við hugbúnaðarverkefni sem ekki fóru í útboð hafi numið hátt í 200 milljónum króna. Hugbúnaðurinn er ekki í notkun í dag.
Fyrrverandi embættismaður í félagsmálaráðuneytinu sat beggja vegna borðsins þegar hann samdi fyrir hönd ríkisins um kaup á hugbúnaði af fyrirtæki sem hann stýrði sjálfur.
Hvað er búið að gerast?
Þrjú af fjórum verkefnum sem fyrirtækið Forsvar ehf. á Hvammstanga hefur tekið að sér hafa ítrekað sætt gagnrýni Ríkisendurskoðunar vegna þess hvernig staðið var að þeim af hálfu ríkisins. Aðeins eitt af verkefnunum fjórum komst í notkun.
Umsjón með gerð verkefnisins af hálfu ríkisins var í höndum þriggja manna stýrihóps sem félagsmálaráðherra skipaði og starfaði til ársins 2007. Garðar Jónsson, annar af tveimur fulltrúum ráðherra í hópnum, var á sama tíma stjórnarformaður Forsvars ehf. og eigandi fyrirtækis sem síðar rak hugbúnaðinn.
Páll Pétursson, þáverandi félagsmálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, skrifaði undir samninginn við Forsvar.
Hvað gerist næst?
Nánar verður fjallað um málið í Kastljósi. Garðar Jónsson baðst undan viðtali við Kastljós en sagði að vera sín, beggja vegna borðs, hafi alltaf verið með vitund og vilja ráðuneytisins. Þessu neitaði Þór G. Þórarinsson formaður stýrihópsins.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.