Auglýsing

Hálfviti vinnur boxbardaga

Floyd Mayweather hefur aldrei tapað boxbardaga. Hann hafði betur gegn Manny Pacquaio í nótt í 48. bardaganum sínum á ótrúlegum atvinnumannaferli sem hófst árið 1996.

Mayweather er almennt talinn einn besti boxari sögunnar. Einstakur íþróttamaður sem er nú handhafi allra stóru titlanna í veltivigt. Hann varði WBA, WBC og The Ring titlana sína í nótt og vann WBO-titilinn af Pacquaio.

En Floyd Mayweather er líka hálfviti sem lemur fólk utan hringsins.

Fyrir bardagann í nótt birtust ótal greinar sem segja frá ofbeldi sem Mayweather hefur beitt barnsmóður sína, unnustur og aðrar konur og karla.

Hann er launahæsti íþróttamaður heims um þessar mundur og rétt eins og þá tugi lúxusbíla sem hann hefur keypt fyrir gríðarleg auðævi sín lítur hann á konur sem eignir sínar.

Og kemur fram við þær sem slíkar.

Josie Harris, barnsmóðir Mayweather, segir boxarann hafa gengið í skrokk á sér sex sinnum.

Versta tilvikið var í september árið 2010 þegar hann braust inn til hennar þar sem hún svaf, reif hana á hárinu niður á gólf og sparkaði í hana og kýldi fyrir framan börnin þeirra. Hann hótaði sonum sínum þegar þeir reyndu að stöðva hann.

Elsti sonur þeirra, Koraun, gerði öryggisvörðum viðvart sem höfðu svo samband við lögreglu. Mayweather var dæmdur í 90 daga fangelsi. Fullnustu dómsins var frestað svo að hann gæti barist í hnefaleikabardaga í Las Vegas.

Mayweather hefur verið sakaður um sjö líkamsárásir gegn fimm konum. Síðast í fyrra kærði Shantel Jackson, fyrrverandi unnusta hans, hann fyrir líkamsárás, frelsissviptingu og fyrir að beina að sér byssu.

Hann hefur enga iðrun sýnt og afskrifaði ásakanirnar sem slúður, í frægu viðtali á CNN í fyrra.

Hann segir meira að segja að „aðeins guð geti dæmt hann“.

Þvílíkur hálfviti.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing