Fjölmiðlar víða um heim hafa greint frá rannsókn sem átti að sýna fram á að skegg karlmanna séu full af kúk. Fréttir voru meðal annars ræddar í Morgunþættinum á FM957 og á samfélagsmiðlum hefur dómstóll götunnar farið ófögrum orðum um skeggjaða karlmenn.
Vefurinn Snopes, sem sérhæfir sig í að rannsaka sannleiksgildi frétta hefur úrskurðað að þessar fréttir séu byggðar á fölskum forsendum. Þær eru einfaldlega ekki réttar.
Fjölmiðlar sögðu frá því að skegg karlmanna væru skítugri en klósettskálar og er vitnað í „rannsókn“ sem virðist hafa átt sér stað á útvarpsstöð í Albuquerue.
Rannsóknin var langt frá því að vera vísindaleg og fól í sér að sýni voru tekin úr skeggi nokkurra einstaklinga og niðurstöðurnar svo teknar úr samhengi af fréttamiðlum, samkvæmt umfjöllun Snopes.
Á vef breska blaðsins The Guardian hrekur blaðamaðurinn Nick Evershed rannsóknina og segir skeggjaða ekki þurfa að hafa neinar áhyggjur.
Umfjöllun Washington Post tekur í sama streng.
Engar áhyggjur, strákar.