Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, komst á dögunum í tölvu Brynjars Níelssonar, samflokksmanns síns. Brynjar var með Facebook opið og Guðlaugur skildi eftirfarandi skilaboð eftir í nafni félaga síns:
Eyjan greinir frá þessu. Þar kemur fram að Brynjar er harður Valsari og hugsaði Guðlaugi þegjandi þörfina.
„Eins og allir hljóta að sjá er útilokað að ég sjálfur hafi skrifað þessa færslu. Ég er hér fórnarlamb hrekks og pörupilturinn Guðlaugur Þór er sökudólgurinn,“ er haft eftir Brynjar á Eyjunni.
„Hann taldi sig eiga harma að hefna eftir að ég sagði frú Ágústu frá hinum ýmsu löstum sem hann hafði kosið að segja henni ekki frá.“
Sjá einnig: Vinnustaðarhrekkur á Alþingi: Borð Sjálfstæðisflokksins tekið frá fyrir Pírata
Í færslu um málið á Facebook segist Guðlaugur Þór ekki eiga neinar málsbætur.
„Brynjar Níelsson sagði mér að ef ég myndi sýna iðrun myndi það þýða refsilækkun. Ég finn ekki fyrir neinni iðrun. Ef ég gæti gert þetta aftur, þá myndi ég gera það,“ segir hann kampakátur og bætir við að Brynjar hafi haft húmor fyrir hrekknum.
„Ég er búinn að útskýra fyrir honum að hann hafi átt þetta skilið. Finn ekki fyrir miklum skilningi.“
Þetta er annar hrekkurinn á Alþingi á skömmum tíma en á dögunum hrekkti Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, þingmenn Sjálfstæðisflokksins eftirminnilega.