Auglýsing

Ögmundur ver Ásmund: Fékk sér vín en er hvorki drykkjumaður né lygari

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, tekur til varna fyrir Ásmund Einar Daðason í pistli sem hefur vakið mikla athygli á bloggi sínu í morgun.

Stóra ælumál Ásmundar Einars hefur tekið á sig ýmsar myndir undanfarna daga. Farþegar hafa stigið fram og lýst uppákomunni í fluginu til Washington en félagar Ásmundar á þingi hafa varið hann í fjölmiðlum.

Sjá einnig: Ölvaður Ásmundur Einar ældi út um allt í flugi Wow Air

Ögmundur segir að fullyrt hafi verið í fjölmiðlun að Ásmundur Einar sé lyginn drykkjumaður. „Hann er hvorugt,“ segir Ögmundur.

Ögmundur segir rétt að Ásmundur hafi fengið sér vín en segir einnig rétt að hann hafi orðið veikur.

Heimkominn leitaði hann læknis sem setti hann á lyfjakúr og ráðlagði honum að vera frá vinnu um sinn. Engu að síður brást hann við kalli um að mæta á nefndarfund og í atkvæðagreiðslu þótt veikur væri. Sagt er að hann hafi brosað í þingsal, veikur maðurinn!

Ögmundur segist margoft hafa tekið þátt í gleðskap með Ásmundi Einari. „Og í ljósi þeirrar reynslu fullyrði ég þetta: Hann er hófsemdarmaður og stendur hann mörgum okkar framar að því leyti.“

Loks sakar Ögmundur fólk um að ljuga upp á Ásmund.

„Hjá flestum er að finna einhverjar brotalamir. Sjálfur kannast ég við ýmsar. En ég bý þó ekki við þá brotalöm að láta ljúga upp á félaga minn og vin án þess að segja orð honum til varnar.“

Uppákoma Ásmundar Einars átti sér stað í flugi Wow Air til Washington með utanríkismálanefnd Alþingis.

Nefndin átti fundi með fulltrúum utanríkismálanefndar fulltrúadeildar bandaríska þingsins, utanríkisráðuneyti, varnarmálaráðuneyti, viðskiptafulltrúa, Alþjóðabankanum og hugveitunni Atlantshafsráðinu.

Ásamt Ásmundi tóku þátt í heimsókninni Birgir Ármannsson formaður, Vilhjálmur Bjarnason, Elín Hirst, Óttarr Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Birgitta Jónsdóttir.

Ferðinni lauk 13. maí s.l. Fyrsta frétt DV um málið var birt 19. maí og þar talaði Ásmundur um að vera nýmættur í vinnuna „eftir þessi veikindi“.

Eftir að fleiri fréttir birtust af málinu virðist Ásmundur hins vegar hafa veikst á ný og er nú í veikindaleyfi frá störfum sínum á Alþingi.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ögmundur tekur til varna fyrir Ásmund.

Í lok árs 2010 skrifaði hann pistil undir fyrirsögninni: Árásirnar á Ásmund Einar þar sem hann sagði fjölmiðla „hamast á hinum unga galvaska þingmanni Dalamanna“.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing