Uppfært kl. 9.32: Þjarmað er að forsvarsmanni FIFA á blaðamannafundinum. Hann var að ítreka að aðgerðirnar hafi engin áhrif á væntanleg stórmót í Katar og í Rússlandi. Þá leggur hann mikla áherslu á að Sepp Blatter komi ekki nálægt málinu.
—
Lögreglan í Sviss handtók í morgun sex háttsetta starfsmenn FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins, sem grunaðir eru um spillingu.
Mennirnir eru sakaðir um peningaþvætti og mútustarfsemi síðustu tuttugu árin. Talið er að upphæðirnar sem um ræðir nemi um hundrað milljónum bandaríkjadala, eða hátt í 14 milljörðum íslenskra króna.
Á vef BBC kemur fram að Jeffrey Webb, einn varaforseta FIFA, og Eugenio Figueredo, forseti knattspyrnusambands Suður-Ameríku (CONMEBOL), séu á meðal þeirra handteknu.
FIFA boðaði blaðamannafund klukkan níu. Smelltu hér til að fylgjast með honum á vef The Guardian.
Mennirnir voru allir staddir í Zurich í Sviss þar sem ársfundur FIFA fer fram á föstudaginn. Búist er við að þeir verði framseldir til Bandaríkjanna í dag.
Forseti FIFA, hinn afar umdeildi Sepp Blatter, sækist eftir endurkjöri á ársfundinum en hann er ekki á meðal hinna handteknu.