Auglýsing

Sjáðu umtalaða ræðu yngstu þingkonunnar: „Gróusögur, kýtingar, uppnefni, baktal og leiðindi“

Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingkona Framsóknar, las yfir þingheimi í liðnum störf þingsins í dag. Ræðuna má sjá hér fyrir neðan.

„Eins og umhverfið hefur verið á þessum vinnustað er það varla orðið boðlegt fyrir fólk að eiga að vinna við það, gróusögur, kýtingar, uppnefni, baktal og leiðindi,“ sagði hún.

„Ég hef alltaf verið þakklát fyrir þau gildi sem foreldrar mínir sendu mig með út í lífið, meðal annars að kurteisi kostaði ekkert, að ég ætti að bera virðingu fyrir mér eldra fólki og koma fram við aðra eins og ég vil að þeir komi fram við mig. Þessi gildi vil ég hafa áfram að leiðarljósi, en því miður gerir hegðun margra háttvirtra þingmanna það mér mjög erfitt fyrir.“

Jóhanna sagðist ekki gera sér miklar vonir um breytingar eftir ræðuna en ítrekaði að þingheimur yrði að taka upp betra háttalag.

„Til að mynda væri það strax til bóta ef maður þyrfti ekki að sitja undir bölvi og dónaskap í sinn garð og flokksfélaga frá næstu sessunautum,“ sagði hún.

„Ef háttvirtum þingmönnum líkar svona illa við ákveðið fólk, legg ég til að þeir færi það tal inn á þingflokksfundi sína eða bakherbergi í húsinu.

Ef þetta væri einhver annar vinnustaður og mér dytti í hug að kalla samstarfsfélaga mína hryggleysingja, lindýr, talibana, dólga og einræðisherra, ef ég mundi líkja þeim við menn sem framið hafa hræðilega glæpi, fjöldamorð eða annað sem setur svartan blett á heimssöguna, þá væri ekki lengi verið að kalla mig inn á teppið. “

Ræðuna má sjá hér fyrir neðan.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing