Um hvað snýst málið?
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, kynnti frumvarp um afnám gjaldeyrishafta á ríkisstjórnarfundi á föstudag. Stöðugleikaskattur upp á 40% á að skila ríkissjóði 500 milljörðum króna. DV greindi fyrst frá málinu.
Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fundaði í dag um undirbúning aðgerðaráætlunar stjórnvalda vegna losunar fjármagnshafta.
Þingfundur verður í kvöld þar sem gera má ráð fyrir því að frumvörpin verði afgreidd. Samkvæmt DV er talið mikilvægt að ljúka málunum áður en markaðir opna í fyrramálið.
Hvað er búið að gerast?
Gjaldeyrishöft hafa verið á Íslandi frá bankahruninu 2008.
Oft er talað um snjóhengjuna í samhengi við heildareignir slitabúa föllnu bankanna. Þær námu um 2.200 milljörðum króna í árslok 2014. Erlendir aðilar eiga um 94% allra samþykktra krafna á hendur gömlu bönkunum.
Kröfuhafar slitabúanna geta flutt þessa peninga úr landi með snöggum hætti ef gjaldeyrishöftin væru afnumin öll í einu. Það gæti haft mjög mikil áhrif á gengi íslensku krónunnar.
Í umfjöllun DV kemur fram að takist slitabúum föllnu bankanna ekki að ljúka uppgjöri sínu með nauðasamningum sem ógna ekki greiðslujöfnuði þjóðarbúsins til lengri tíma litið og áætlun um losun hafta þurfa þau að greiða 40% skatt af peningum sem þau flytja úr landi við afnám gjaldeyrishafta.
Hvað gerist næst?
Frumvörpin verða kynnt á blaðamannafundi á morgun eða í síðasta lagi á þriðjudag.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.