Memfismafían hefur sent frá sér lagið Mannanafnanefnd. Lagið er af væntanlegri barnaplötu sem heitir Karnivalía. Hægt er að hlusta á það hér fyrir neðan.
Sjá einnig: Þjóðskrá hafnar nafnabreytingu Jóns Gnarr
Bragi Valdimars Skúlason, höfundur lagsins, segist vera orðinn pirraður á því að fólk megi ekki heita það sem það vill.
Það eru til svo kengfurðuleg nöfn í málinu. eins og t.d. Jón og Guðmundur, að ég skil ekki hvers vegna það má ekki bæta í að vild. Það má til dæmis heita Bruno Mars samkvæmt nafnaskrá, og Kjárr. En ekki Gnarr.
Jón Gnarr kemur fram í laginu og á meðal annars þessa góðu línu: „Það verður að vera stjórn á mannanöfnum — annars myndu allir bara heita Hitler“.
Bragi segir að Jón hafi verið meira en til í að taka þátt. „Enda brjálaður yfir þessu.“
Jón hefur barist fyrir því að fá að taka upp Gnarr sem ættarnafn en ekki fengið það í gegn á Íslandi, þrátt fyrir að ná því í gegn í Houston í Texas fyrr á árinu.
Hér má hlusta á lagið og textinn er fyrir neðan.
Daginn sem ég fæddist fékk ég nafn
Frekar stutt, það rímaði við Hrafn
Það var frumlegt, það var flippað
Og það fór mér býsna vel
En varðhundunum varð þó ekki um sel.
Því sumir vita betur börnin góð
hvað ber að nefna þessa litlu þjóð.
Það er einhver úldin blanda
af ofstæki og hefnd
sem drífur þessa mannanafnanefnd.
Ég heiti ekki neitt. Ég heiti ekki neitt.
Sumir heita Helmút og aðrir heita Jens.
En ég heiti ekki neitt.
Mamma og pabbi urðu svaka svekkt.
Og síðan urðu þau að borga sekt.
Því ordnung þarf og aga
svo allt sé slétt og fellt.
Niðursoðið, gerilsneytt og gelt.
Ég heiti ekki neitt. Ég heiti ekki neitt.
Sumir heita Gautviður og aðrir heita Kort.
En ég heiti ekki neitt.
Ég heiti ekki neitt. Ég heiti ekki neitt.
Sumir heita Bruno og aðrir heita Mars
En ég heiti ekki neitt.
Ég heiti ekki neitt. Ég heiti ekki neitt.
Sumir heita Parmes og aðrir heita Svan
En ég heiti ekki neitt.
Ég heiti ekki neitt. Ég heiti ekki neitt.
Sumir heita Ósvífur og aðrir heita Gnarr
En ég heiti ekki neitt.