Sæmundur Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri Hreyfils, sagði í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun að sér hugnaðist ekki innreið appsins Uber hér á landi. Hann sagði leigubílamarkaðinn á Íslandi góðan, öruggan og ódýran.
Í Fréttablaðinu í gær kom fram að Ólöf Nordal innanríkisráðherra vilji auka frelsi á leigubílamarkaði og sé hrifin af leigubílaþjónustunni Uber.
Uber hefur safnað nægilega mörgum undirskriftum til þess að hefja þjónustu sína í Reykjavík. Fyrirtækið á enga bíla og engir bílstjórar starfa þar.
Uber tengir farþega og almenna ökumenn saman í gegnum app. Þar er hægt að panta bíl, fylgjast með staðsetningu hans og ganga frá greiðslu. Nú er nú hægt að skrá sig sem bílstjóra í Reykjavík á vef Uber.
Sjá einnig: Innanríkisráðherra vill auka frelsi á leigubílamarkaði: Ólöf er hrifin af Uber
Leigubílstjórar hafa víða mótmælt Uber og í Frakklandi hafa þeir eflaust gengið lengst. Í pistli Freys Eyjólfssonar á Kjarnanum kemur fram að komið hafi til átaka í París milli óeirðalögreglu og leigubílstjóra út af Uber.
„Þeir lokuðu aðgangi að lestarstöðvum og flugvöllum, götum og hraðbrautum. Brenndu hjólbarða, réðust á fréttamenn og tókust á við lögreglumenn í miklu stíði þar sem táragas og kylfur dönsuðu í loftinu. Franskir leigubílstjórar þefuðu uppi hundruð Uber-bíla og lögðu í rúst,“ segir í pistlinum.
Sæmundur sagði eðlilegt að Uber hafi ekki fallið í góðan jarðveg. „Þarna er stétt manna sem vinnur undir ákveðnum lögum í landi hverju og það á sama við hér,“ sagði hann.
Þarna er að koma inn eitthvað forrit – þetta Uber-forrit – þá vaknar sú spurning hvernig er eftirlitið og lagabókstafurinn í kringum þá bílstjóra sem þar aka. Hvaða kröfur eru gerðar til þeirra? Eru þær sambærilegar og annarra leigubílstjóra?
Hann játaði að þetta væri mikið hagsmunamál, sagði að sér hugnaðist þetta ekki og spurði af hverju það væri verið að velta vöngum yfir þessu.
„Er leigubílamarkaðurinn svona lélegur í dag? Ég vil halda því fram að hann sé til mikillar fyrirmyndar hér hjá okkur. Leigubílaþjónustan er hér mjög góð, hún er örugg og hún er ódýr. Hún er það. Það má koma hér fram að gjaldskrá leigubíla á suðvesturhorni landsins hefur ekki hækkað síðan 1. mars 2013.“
Hlustaðu á viðtalið hér fyrir neðan.