Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að gagnrýna megi uppsetningu gangbrauta ofan í hringtorgum þar sem sem ökumenn sem aka út úr hringtorgi sjá illa gangandi vegfarendur. Gagnrýnin kemur í kjölfarið á því að ekið var á barn á hjóli við hringtorgið á Fífuhvammsvegi við Salaveg á föstudaginn.
Lögreglan segir í færslu á Facebook að það sé alltaf aukið stress að aka um hringtorg — enn frekar af því að á hringtorgum sem þessu er hækkun á jarðvegi og tré sem byrgja alveg útsýnið yfir þau.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur verið gert viðvart og hefur sent starfsmann til að skoða aðstæður.
Stúlkan slapp vel frá slysinu, samkvæmt færslu lögreglunnar. Þar segir að slysið hafi verið dæmigert.
„Sjö ára stelpa á reiðhjóli er að koma að gatnamótunum úr vestri. Ökumaður sem ekur suður sér hana og stoppar til að hleypa henni yfir en á sama tíma þá er ökumaður að aka Fífuhvammsveg í norður og ekur inn á hringtorgið þar sem hann sér ekki gagnbrautina. Ökumaðurinn sá síðan stúlkuna rétt áður en hann ekur á hana.“
Lögreglan minnir alla ökumenn á að fylgjast vel með öllu og líka gangandi vegfarendum.