Magnús Guðmundsson, eða Maggi Peran, sló öll met á Snapchati Fótbolta.net (fotboltinet) á dögunum.
Um átta þúsund manns fylgdust með uppátækjum Magga, sem er harður stuðningsmaður Leiknis í Pepsi-deild karla, í undirbúningi fyrir leik gegn Val. Það er talsvert meira áhorf en venjulega, samkvæmt upplýsingum frá Elvari Geir Magnússyni, annars ritstjóra Fótbolta.net.
Maggi fékk gríðarleg viðbrögð við færslunum á Snapchat, fylgjendurnir hrundu inn á Twitter en þar var #peruvaktin eitt mest notaða kassamerkið daginn sem hann lék á als oddi.
Nú lætur hann sig dreyma um að eitthvað fyrirtæki sendi Peruvaktina út til Amsterdam að fjalla um leik Íslendinga við Hollendinga. „Það yrði flugeldasýning,“ segir hann.
En hver er Maggi Peran?
Í samtali við Nútímann segist hann vera 33 ára húðflúraður eilífðarunglingur úr Breiðholti sem tekur lífinu alls ekkert of alvarlega.
„Ég hef alla mín ævi búið í efra-Breiðholti, fyrir utan stutta dvöl í Dalvíkurbyggð, og elska hverfið af öllu hjarta,“ segir hann.
„Perunafnið fæ ég í beinan karllegg frá karli föður mínum en hann fékk viðurnefnið Gummi Peran þegar hann var að vinna í fyrirtæki þar sem þrír aðrir hétu Guðmundur Magnússon. Pabbi var að sjóða perustefni á skip og þótti stefnið líkjast belgnum á honum. Köllunum þótti fyndið að slengja nafninu á hann.
Ég fékk þá viðurnefnið Litla Peran en stækkaði fljótt í báðar áttir og þá hvarf orðið „litla“. Alla daga síðan þekkir enginn mig í hverfinu undir öðru nafni.“
Maggi er tómstundafræðingur að mennt og var verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg í rúman áratug. Hann starfar nú hjá Amnesty International og tekur einnig að sér hópefli fyrir fyrirtæki og stofnanir í hjáverkum.
Hann byrjaði að æfa með Leikni fimm ára gamall og æfði í 12 ár. Hann segist þó hvorki hafa lært að taka á móti bolta né senda hann frá sér.
„En ég var þó ég segi sjálfur frá einn besti tuddinn í liðinu,“ segir hann léttur. „Ég átti spjaldamet hjá félaginu og var iðulega fenginn í það að taka menn úr umferð.“
Hann byrjaði svo að styðja Leikni úr stúkunni eftir að skórnir fóru á hilluna.
Spurður út í góða sögu af fótboltaferlinum minnist hann leiks gegn Val í 4. flokki.
„Ég átti að passa Snorra Stein Guðjónsson, son Gaupans, og gerði það af mínum þekkta tuddaskap. Hann var ógeðslega góður og var að láta mig líta illa út,“ segir Maggi.
Ég hótaði að heimsækja hann í Hlíðahverfið ef hann myndi ekki hætta þess og hann spilaði illa eftir það.
Maggi bað svo um skiptingu í hálfleik þar sem hann var að eigin sögn þreyttur og svangur.
„Ég pantaði mér pitsu á hliðarlínuna og hún kom þegar svona tíu míntútur voru eftir. Þegar leikmenn voru að þakka fyrir leikinn þá var ég að klára síðustu skorpuna á einni 16 tommu með tvöföldu pepperoni. Ég bauð Snorra sneið en hann afþakkaði.“
En hvernig er að búa í Breiðholtinu í dag?
„Þökk sé síðasta og núverandi meirihluta í borginni þá er fókusinn meira á Breiðholtið. Hér iðar allt af menningu og mannlífi í alþjóðlegu umhverfi. Hér eru sett upp litskrúðug listaverk og þjónusta sem var hverfandi er öll að koma aftur í heimabyggð,“ segir Maggi ánægður.
„Miðbærinn hefur sinn sjarma sem Breiðholtið er ekkert að eltast við heldur erum við íbúarnir að keppast við að búa til félagsauð og fjölskylduvænt andrúmsloft. Fordómar í garð hverfisins eru að hverfa og staðalímyndir um flíspeysumömmur úr Fellahverfinu er að molna. Það er hvergi betra að búa en í Breiðholtinu.“