Kvikmyndaleikstjórinn Dagur Kári segir að kynjakvóti sé niðurlægjandi fyrir konur. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Dags.
Tilefnið er viðtal við Baltasar Kormák í Fréttablaðinu á dögunum þar sem hann sagðist vera fylgjandi kynjakvóta við úthlutun úr Kvikmyndasjóði. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra tók í sama streng.
Dagur Kári segist vera á móti kynjakvóta í styrkveitingu.
„Kynjakvóti er gjaldþrotsyfirlýsing í jafnréttisbaráttunni; viðurkenning á því að konur þurfi hækju til að komast af,“ segir hann ómyrkur í máli.
Fyrir mér er það algerlega augljóst að konur eru að öllu leyti jafn hæfar til að leikstýra kvikmyndum og karlar. Og örugglega betri. Sú staðreynd að konur hafi verið í skugganum undanfarin ár, er fáránlegt.
Dagur segist telja að umræðan og sú staðreynd að það sé „mjög mikill fjöldi af ótrúlega hæfileikaríkum kvenkyns leikstjórum að banka uppá“ sé nóg.
„Karlinn er out, konan er in. Það er tíðarandinn og sem betur fer,“ segir hann.
„Svíar hafa beitt kynjakvóta í styrkveitingum og eftir því sem ég best veit hefur það verið algerlega mislukkað. Álíka msilukkað og þegar Harpa ákvað að merkja ákveðin bílastæði konum. Kynjakvóti er niðurlægjandi fyrir konur. Áfram konur! Þið eruð bestar og fullkomlega færar um að sýna það í verki!“