Um hvað snýst málið?
Rússar hafa sett viðskiptabann á vörur frá Íslandi og fjórum öðrum löndum. Þar með verður óhemilt að flytja inn matvæli frá Íslandi til Rússlands.
Þúsund störf og 30-35 milljarðar króna eru í húfi fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, samkvæmt Kolbeini Árnasyni, framkvæmdastjóri SFS.
Hvað er búið að gerast?
Evrópusambandið, Bandaríkin og fleiri ríki ásamt ríkjum í NATO hafa beitt Rússa efnahagsþvingunum vegna innlimunar Krím-skaga og stríðsins í Úkraínu. Ísland og fleiri ríki hafa stutt aðgerðir Evrópusambandsins þrátt fyrir að eiga ekki aðild að því. Ísland er í NATO.
Íbúar Krím-skaga eru að meirihluta Rússar en þar er ein mikilvægasta flotastöð rússneska hersins. Krím tilheyrði Úkraínu þar til í fyrra, að Rússland innlimaði skagann, eftir aðgerðir sem mættu fordæmingu á Vesturlöndum.
Rússar hafa bannað innflutning ýmissa matvæla frá Evrópusambandsríkjum, Bandaríkjunum, Ástralíu, Noregi og Kanada. Löndin sem bætast n ú við á listann eru Albanía, Svartfjallaland, Ísland, Liectenstein og Úkraína.
Hvað gerist næst?
Nú verður kannað hvort hægt sé að selja þessar afurðir á aðra markaði. Þá verður athugað hvort hægt sé að vinna afurðina, sem farið hefur á Rússlandsmarkað, með öðrum hætti, samkvæmt framkvæmdastjóra SFS.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.