Auglýsing

Bölvun smokksins

Smokkurinn er hraðahindrun í kynlífi. Þegar fólk er búið að kyssa, sleikja, rúnka og byrjað að klístrast saman af frygð er komið að því að hinkra, opna umbúðir og klæða eineygða tvíburabróðurinn í kæfandi latexbúning svo hann valdi hvorki sér né öðrum skaða. Hann heldur svo sína leið. Sumir bílar komast reyndar ekki yfir hraðahindranir, en þeir eru yfirleitt hraðskreiðir sportbílar (ef þið vitið hvað ég meina).

Sumir hafa ekki kunnáttuna. Í góðum Seinfeld-þætti barðist George Costanza við umbúðirnar á meðan kærastan hvatti hann til dáða. Hún sagði honum að rífa, en hann þráaðist við og reyndi að opna umbúðirnar eins og poka af kartöfluflögum. Þegar það tókst var búið að hengja hvíta fánann utan um vininn (ef þið vitið hvað ég meina).

Svo eru sumir sem nenna ekki. Það er glatað viðhorf í 317.900 manna samfélagi, enda nógu erfitt að forðast sifjaspell á þessu skeri þar sem við erum nánast öll undan sama fólkinu sem reið hvert öðru milli þess sem það hjó frændr sína og bræðr. Þess vegna er ömurlegt að kynsjúkdómar dreifist vegna leti. Leti er reyndar rót margra vandamála; samfélags- og líkamlegra og á enga samleið með kynlífi, sem á að vera tápmikið og lostafullt.

Sóttvarnarlæknir hefur áhyggjur af því að smokkaskattur sé of hár og heilbrigðisráðherra segir beiðni frá Sóttvarnaráði liggja fyrir um aðgang ungs fólks að ókeypis smokkum. Smokkar mættu vera ókeypis frekar en margt annað, en ég held að það sé eitthvað annað en verðið sem veldur því að ungmenni kæri sig ekki um að nota þá.

Pakki með tólf smokkum kostar í kringum 1.500 kall. Samkvæmt því er fórnarkostnaður hverrar umferðar af kynlífi 125 krónur. Þessi 1.500 kall er jafnvirði einnar bíóferðar. Eða tæpra átta lítra af bensíni. Eða einnar hamborgaramáltíðar. Playboy-blað Ásdísar Ránar kostar meira en 1.500 kall. Ég geri mér grein fyrir því að hormónasturlaður unglingur getur farið fleiri en tólf umferðir í klósettrúlluna yfir blaði sem er fullt af berum konum, en hugsanlega á hann eftir að komast að því að lófinn er aumur staðgengill samneytis við aðra manneskju.

Lífseigustu rökin fyrir því að smokkurinn sé bölvun er tilfinningin. Að ríða berbakt er allt annað en að ríða með hnakk. Hnakkurinn veitir öryggistilfinningu á meðan hitt veitir óheft frelsi. Það meikar samt engan sens að hoppa upp á næstu hryssu sem maður sér og ríða henni berbakt. Maður hefur hnakkinn undir sér þar til gagnkvæmt traust myndast (ef þið vitið hvað ég meina).

Þessi pistill birtist í Fréttablaðinu fyrir fimm árum en á enn vel við í dag.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing