Leigubílstjóri í Peking var í skamma stund eigandi gullmedalíu frá heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem stendur nú yfir í Kína eftir að pólski sleggjukastarinn Pawel Fajdek notaði verðlaunin sín til að borga fyrir far á hótelið.
Fajdek fór á djammið til að fagna gullverðlaunum sem hann vann á sunnudag eftir að hann kastaði sleggjunni 80,88 metra. Hann ákvað svo að nota gullverðlaunin til að greiða fyrir farið eftir að hafa fengið sér aðeins of marga, eins og það er orðað í frétt Bleacher Report.
Eftir að Fajdek uppgvötaði hvað hann hafði gert hafði hann samband við lögregluna sem hjálpaði honum að rekja leiðina á hótelið og finna leigubílstjórann. Bílstjórinn staðfesti að Fajdek hafði greitt fyrir farið með verðlaununum en var ekkert sérstaklega viljugur til að skila henni.
Fajdek fékk þó á endanum verðlaunin aftur. Skál fyrir því.