Leikkonan Heiða Rún Sigurðardóttir, sem kallar sig Heida Reed úti í hinum stóra heimi, stefnir á að freista gæfunnar í leiklistinni í Bandaríkjunum. Hún er að reyna forðast samband þar sem það truflar einbeitinguna. Þetta kemur fram í DV.
Sjá einnig: Poldark hefur slegið í gegn: Heiða Rún í BBC-þáttunum í allt að fimm ár í viðbót
Í viðtalinu í DV kemur fram að eftir að tökum á næstu seríu Poldark lýkur stefnir Heiða á að freista gæfunnar í Bandaríkjunum.
Ég er með umboðsskrifstofu í New York en mun líklega eyða mestum tíma í Los Angeles núna. Það er svo miklu meira af hlutverkum í boði í Bandaríkjunum og ég er bjartsýn á að fá eitthvað bitastætt, þó svo að samkeppnin sé harðari.
Í DV kemur einnig fram að leikkonan sé einhleyp og hafi ekki hug á að breyta því á næstunni.
„Ég er að reyna eins og ég get að forðast það. Það hefur svo mikil áhrif á mig og truflar einbeitinguna,“ segir hún. „Vinnan er mjög krefjandi og ég þarf að vera mikið að heiman og svona vil ég hafa þetta núna.“
Heiða hefur gert samning um að leika í sjónvarpsþáttunum Poldark næstu fjögur til fimm árin.
Þættirnir eru framleiddir af BBC og njóta mikilla vinsælda. Nútíminn greindi frá því fyrr á árinu að sjö milljónir manna fylgdust að jafnaði með fyrstu þáttaröðinni en tökur á annarri þáttaröð hefjast í september.
Þættirnir gerast á 19. öld og fjalla um Ross Poldark, sem leikinn er af Aidan Turner. Hann snýr heim úr stríði og kemst að því að hann hefur verið úrskurðaður látinn og að unnusta hans, sem Heiða Rún leikur, sé trúlofuð frænda hans.
Ástarmálin verða svo flóknari eftir því sem líður á þessa átta þátta seríu sem Bretarnir kunna vel að meta.