Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Þóra Margrét Baldvinsdóttir, eiginkona hans, skráðu sig fyrir forvitnissakir á vefinn umdeilda Ashley Madison. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Þóru Margrétar.
Vefurinn Ashley Madison leiðir saman gift fólk og fólk í samböndum sem hefur áhuga á að halda fram hjá maka sínum. Vefurinn komst í heimsfréttirnar á dögunum þegar tölvuþrjótar réðust á vefinn og stálu þaðan upplýsingum um 37 milljónir notendur vefsins.
Gamalt netfang Bjarna frá því hann var stjórnarformaður N1 er að finna í gögnunum.
„Kæru vinir. Ekki er öll vitleysan eins. Okkur hjónum hafa borist margar ábendingar um að nú sé talsvert rætt manna í milli um að gamalt netfang Bjarna tengist gögnum af Ashley Madison vefnum sem dreift hefur verið á netinu,“ segir Þóra Margrét á Facebook-síðu sinni.
Svona getur forvitnin leitt mann í gönur. Við heyrðum um þennan umdeilda vef í erlendum fréttum fyrir um 7 árum. Í framhaldi af því skoðuðum við vefinn fyrir forvitnissakir, en til þess þurfti að fylla út þar til gert form, skrá netfang, erlent póstnúmer og fleira sem við gerðum í algjörum hálfkæringi og af léttúð.
Hún segir þau hjón aldrei síðan hafa farið inn á vefinn.
„Það var aldrei greitt fyrir skráningu eða aðgang að vefnum. Þessi heimsókn hefur ekki leitt til samskipta við nokkurn mann, hvað þá trúnaðarbrots af neinum toga. Ekki er allt sem sýnist á netinu,“ segir hún.
Kæru vinir. Ekki er öll vitleysan eins. Okkur hjónum hafa borist margar ábendingar um að nú sé talsvert rætt manna í…
Posted by Þóra Margrét Baldvinsdóttir on Monday, August 31, 2015