Stefnuræða forsætisráðherra og umræður í kjölfar hennar fram á Alþingi í kvöld en þingið var sett fyrr í dag. Flokkarnir eru yfirleitt duglegir við að nota Facebook til að koma stefnu sinni á framfæri en mjög stór hluti þjóðarinnar notar samfélagsmiðilinn.
En hvernig stóðu þeir sig í að koma boðskapnum í ræðum kvöldsins til fólksins? Afar misjafnlega. Nútíminn fór á Facebook-síður allra flokkanna og kannaði málið.
Rúnturinn hófst á Facebook-síðu Framsóknarflokksins. Þar er vitnað í ræðu forsætisráðherra og vísað í frétt Ríkisútvarpsins um hana. Ekkert er minnst á Eygló Harðardóttur og Ásmund Einar Daðason, sem fluttu einnig ræður í kvöld. Færslan um Sigmund Davíð hefur ekki slegið í gegn en aðeins 15 manns höfðu líkað við hana þegar þetta er skrifað.
Samfylkingin var duglegri en Framsókn og birti fjórar færslur í kvöld. Fyrstu þrjár eru grafík með texta þar sem vitnað er í ræður Árna Páls Árnasonar, Katrínar Júlíusdóttur og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Loks er birt glaðleg mynd af þremenningunum ásamt Oddnýju Harðardóttur.
Samstals er Samflylkingin búin að raka til sín 81 læki, þegar þetta er skrifað.
Þrátt fyrir að myndin í hausnum á Facebook-síðu VG segi „jöfnuður“ var ekki birt færsla um alla ræðumenn flokksins. Aðeins er birt ein færsla sem vitnar í ræðu Katrínar Jakobsdóttur á vef flokksins en Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir sitja eftir með sárt ennið.
Færslan um ræðu Katrínar hefur sótt 55 like þegar þetta er skrifað.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert birt um ræður kvöldsins sem voru fluttar af Bjarna Benediktssyni, Jóni Gunnarssyni og Sigríði Andersen. Falleinkunn.
Björt framtíð birtir fjólubláa grafík með tilvitnunum í ræðumenn sína: Óttarr Proppé, Brynhildi Pétursdóttur og Guðmund Steingrímsson. Þegar þetta er skrifað er flokkurinn búinn að raka til sín 45 lækum á færslurnar.
Píratar birta ræður þingmanna sinna í heild. Birgitta Jónsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson fluttu ræðurnar sem hafa rakað til sín samtals 62 lækum.
Í heildina fá flokkarnir ekki háa einkunn. Framsetningin hefði mátt vera skemmtilegri en svo virðist sem lítil vinna hafi verið lögð í að koma boðskapnum á framfæri. Enginn flokkur nýtir t.d. myndbönd til að miðla boðskapnum úr ræðunum.