Þingmenn draga ekki hvers konar hlunnindi á ferðum sínum á vegum Alþingis frá dagpeningagreiðslum þrátt fyrir að þeir eigi að gera það. Þetta kemur fram í umfjöllun um kostnað ferðalög þingmanna í Fréttablaðinu í dag.
Í Fréttablaðinu kemur fram að kostnaður við dagpeningagreiðslur þingmanna nemi um 28,5 milljónum króna á kjörtímabilinu. Þá kemur fram að upplýsingar um dagpeningagreiðslur á þessu kjörtímabili hafi ekki fengist frá skrifstofu Alþingis og að allt bendi til þess að dagpeningagreiðslur þingmanna séu mun hærri en í umfjölluninni.
Í umfjöllun blaðsins kemur fram að samkvæmt bréfi ferðakostnaðarnefndar frá því 2004 eigi styrkir og hvers konar hlunnindi varðandi gistingu og fæði, sem starfsmenn njóta meðan á dvöl stendur, að koma til frádráttar dagpeningagreiðslum.
Ef þingmenn fá til dæmis frítt fæði á meðan dvöl stendur eða boð í veislur er þeim skylt að draga það frá greiðslum dagpeninga.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri þingsins, segir í Fréttablaðinu að þessari reglu hafi hins vegar ekki verið fylgt og því fá þingmenn fulla dagpeninga hvort sem þeir þurfa að greiða fyrir eigið uppihald eða ekki.