Íslandsbanki stendur fyrir fundi um viðmót og notendaupplifun í stafrænum heimi á morgun. Fundurinn hefst klukkan 8.15 og stendur til níu. Hægt er að skrá sig á fundinn á vef Íslandsbanka hann verður einnig í beinni útsendingu á Nútímanum.
Framsögumaður á fundinum verður Jói Sigurðsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Crankwheel og fyrrum sérfræðingur hjá Google í Bandaríkjunum. Umræðustjóri verður Svanur Þorvaldsson, framkvæmdastjóri vefstofunnar Skapalóns.
Jói segist í samtali við Nútímann ætla að fjalla um aðferðir sem eru notaðar hjá CrankWheel til að smíða rétta vöru, uppgötva hvar í notkunarferlinu notendurnir lenda í vandræðum, og finna sársaukann sem notendur finna.
Ég er ekki viðmótshönnuður, þannig að ég ætla ekki að fjalla um hvernig maður teiknar fallegan takka eða hvaða litir eru góðir í viðmóti. Ég hugsa hinsvegar mjög mikið um vöruhönnun.
Þá segist hann ætla að taka raunveruleg dæmi um hvað fyrirtækið hefur lært af notendaprófunum.
„Og sýna hvernig hægt er að setja upp einfalt User Testing án mikils kostnaðar. Tengi þetta síðan allt við það hvernig stór fyrirtæki og stofnanir eins og bankar gætu nýtt sér svipaðar aðferðir.“
Um er að ræða þriðja fundinn í fundaröðinni: Hvað geta bankar lært af öðrum. Fundirnir hafa verið í beinni útsendingu á Nútímanum en á þeim er því velt upp hvað bankar geta lært af tækni- og nýsköpunarfyrirtækjum.