Tónlistarmaðurinn og spekingurinn Dr. Gunni er fimmtugur í dag. Hann ætlar að fagna því með því að fá sér fyrsta húðflúrið sitt. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Húðflúrið verður ansi sérstakt: Þrjár kúlur í brauðformi á öðrum hvorum handleggnum. Hann viðurkennir í Fréttablaðinu að hann er mikill ísmaður.
Já, þetta er það sem fjölskyldan er dálítið í – að fá sér ís. Það er skemmtilegt og lítið karlmannlegt. Maður vill vera sem minnst karlmannlegur enda er karlmennskan að leggja heiminn í rúst. Það gerir apaeðlið.
Hann segir lítið merkilegt að verða fimmtugur. „Maður má bara þakka fyrir að hafa ekki verið uppi fyrir 1.000 árum og vera dauður löngu fyrir þann aldur úr einhverju rugli,“ segir hann í Fréttablaðinu.
Dr. Gunni fagnar afmælinu og plötunni Dr. Gunni í sjoppu í Lucky Records í dag klukkan 17. Sérstakir gestir eru Vídeósílin og það kostar ekkert inn.