Auglýsing

Örskýring: Ætla að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi

Um hvað snýst málið?

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að hefja átak sem miðar að því að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi. Fólki sem er smitað af lifrarbólgu C mun bjóðast meðferð með nýjum lyfjum sem geta læknað sjúkdóminn í allt að 95-100% tilvika.

Hvað er búið að gerast?

Átakið er samstarfsverkefni heilbrigðisyfirvalda og lyfjafyrirtækisins Gilead.

Sigurður Ólafsson, umsjónarlæknir lifrarlækninga á Landspítala, segir í Fréttablaðinu að meðferð við lifrarbólgu C hafi hingað til tekið frá hálfu ári upp í eitt ár með vikulegum sprautum á lyfinu inter­feron.

Það eru miklar aukaverkanir af meðferðinni, svo sem þreyta, þunglyndi, vöðva- og liðverkir og svefntruflanir, og stundum hefur þurft að stöðva meðferð vegna þeirra. Einnig er árangurinn eingöngu um 75 prósent.

Hann segir að nýja lyfjameðferðin taki eingöngu nokkrar vikur og aukaverkanir eru litlar sem engar. Lyfjameðferð er þegar hafin meðal sjúklinga sem eru verst settir og settir í forgang.

Á Íslandi er áætlað að um 800-1.000 manns séu smitaðir af lifrarbólgu C en árlega greinast á bilinu 40-70 einstaklingar.

Lifrarbólga C er alvarlegur og í mörgum tilvikum lífshættulegur sjúkdómur. Sé sýkingin ekki meðhöndluð getur hún leitt til vaxandi örmyndunar í lifur, skorpulifur, lifrarkrabbameins og lifrarbilunar.

Hvað gerist næst?

Átakinu verður hleypt af stokkunum undir lok ársins eða í síðasta lagi í byrjun næsta árs.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing