Heimildarmyndin Jóhanna – Síðasta orrustan verður frumsýnd í Bíó Paradís 15. október.
Nýja stiklu úr myndinni má sjá hér fyrir ofan en í henni má sjá átökin um stjórnarskrármálið frá sjónarhóli Jóhönnu. Ýmislegt gekk á og á einum tímapunkti segir hún á fundi með Degi B. Eggertssyni, þáverandi faraformanni Samfylkingarinnar, að hún skilji ekkert hvað er í gangi niðri á þingi.
Í tilkynningu kemur fram að þetta sé í fyrsta skipti sem heimildarmynd af þessari tegund er gerð hér á landi „þegar fylgst er með stjónmálamanni í valdastöðu og öllum þeim vendingum sem verða í meðferð þingsins á mikilvægu máli – eins og stjórnarskrá Íslands.“
Leikstjóri myndarinnar er Björn B. Björnsson og er hann jafnframt handritshöfundur ásamt Elísabetu Ronaldsdóttur, sem klippir myndina. Kvikmyndatöku annaðist Jón Karl Helgason og tónlistin í myndinni er eftir Tryggva M. Baldvinsson. Framleiðandi er Reykjavík films.