Undanfarið hafa borist fréttir af því að Apple sé að lokka til sín starfsfólk frá bílaframleiðandanum Tesla til að þróa fyrsta rafbíl fyrirtækisins. Brjálaði snillingurinn Elon Musk, forstjóri Tesla, segir að verkfræðingarnir sem Apple næli í hafi verið reknir úr störfum sínum hjá Tesla.
„Þau eru að ráða fólk sem við höfum rekið,“ sagði Musk í samtali við þýska blaðið Handelsblatt.
Við höfum kallað Apple „Tesla grafreitinn“. Ef þú stendur þig ekki hjá Tesla þá ferðu að vinna hjá Apple. Ég er ekki að grínast.
Spurður hvort hann taki Apple alvarlega sem samkeppni í rafbílabransanum svaraði Musk: „Hefurðu skoðað Apple úrið?“
Hann sagðist vera ánægður með að Apple sé að þróa rafbíl og fjárfesta í slíku verkefni. Hann efast samt um getu fyrirtækisins til að gera það vel.
„Bílar eru mjög flóknir miðað við síma og úr. Þú getur ekki bara farið í verksmiðju eins og Foxconn og sagt þeim að smíða handa þér bíl. Fyrir Apple er bíll samt tækifæri til að bjóða loksins upp á almennilega nýsköpun. Penni og stærri iPad er ekki nóg.“