Forsætisráðuneytið hefur gengið frá kaupum á Mercedes-Benz S-Class fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Þetta kom fram á vef Viðskiptablaðsins.
Í frétt Viðskiptablaðsins kemur fram að S-Class sé flaggskip þýska lúxusbílaframleiðandans. Listaverð S-Class bílsins er um 22 milljónir en samkvæmt heimildum blaðsins fær forsætisráðuneytið bílinn á undir 13 milljónum.
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, spurði Sigmund um bílakaupin á Alþingi í gær. Hún spurði af hverju umhverfisvænasti kosturinn var ekki valinn og hvort ráðherra hafi ekkert um kaupin að segja, þar sem hann hafi áður sagt æskilegt að ríkið leitaðist við að sýna gott fordæmi í þessum málum.
Ef það verða endilega að vera lúxusbílar þá er hægt að kaupa Teslu. Ég efast ekki um að Ríkiskaup og þeir sem brasa í þessu eru að reyna að gera eins hagstæð innkaup og mögulegt er. Annað væri það nú.
Í svari sínu sagði Sigmundur Davíð meðal annars að hann stýrði ekki innkaupum fyrir ríkisstofnanir, hvorki á bílum né öðrum þeim hlutum en bætti við að hann teldi mjög æskilegt að rafbílavæða landið í auknum mæli.
„En þar þurfum við auðvitað að líta til efnahagslegra forsendna líka og að ríkið geti ráðist í þetta án verulegra útgjalda,“ sagði hann.
Þess má geta að Tesla Model S kostar frá 11,7 milljónum án afsláttar. Nissan Leaf rafmagnsbíll kostar hins vegar frá tæplega fjórum milljónum.