Guðlaugur Þór Þórðarson, ritari Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að stíga til hliðar í ljósi nýs framboðs í embættið frá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, 24 ára laganema. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Guðlaugur tilkynnti ákvörðun sína í beinni útsendingu á RÚV fyrr í kvöld.
Mín niðurstaða er þessi; það er best fyrir flokkinn minn og flokkinn okkar, þegar kemur öflugt framboð frá ungri manneskju, að ég stígi til hliðar og gefi henni tækifæri til þess að halda áfram þessu starfi og styðja hana vel í því.
Lengi vel leit út fyrir að Guðlaugur Þór yrði eini frambjóðandinn í embætti ritara Sjálfstæðisflokksins á landsfundinum um helgina. Áslaug Arna tilkynnti svo framboð sitt óvænt í dag.
Áslaug Arna sagði í ræðu sinni í dag að flokksforystan væri einsleit og að það yrði að hleypa ungu fólki að, það þurfi meira frelsi og minna íhald.