Í skýrslu annars brotaþola hjá lögreglu í kynferðisbrotamáli frá því í október kemur fram að annar sakborninga hafi bundið hendur hennar saman með keðju og slegið hana með svipu. Lögreglan lagði hald á svipu og keðju við húsleit í íbúð í Hlíðunum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Lögreglan rannsakar nú mál tengdum mönnunum tveimur en þeir eru grunaðir um að nauðga tveimur stúlkum í október. Í frétt Fréttablaðsins á mánudag kom fram að íbúð annars mannsins hafi verið búin tækjum og tólum til ofbeldisiðkunar.
Mönnunum var sleppt að lokinni frumrannsókn lögreglu. Ekki var farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim. Talið er að í að minnsta kosti öðru tilvikinu hafi konunni verið byrlað ólyfjan áður en ráðist var á hana.
Verjandi annars sakborninga segir í Fréttablaðinu að þessar lýsingar séu ekki í samræmi við lýsingar skjólstæðings hans. Vilhjálmur Vilhjálmsson, verjandi hins, segir skjólstæðing sinn hvorki kannast við að hafa bundið stúlkuna og hvað þá slegið hana með svipu.
Sjá einnig: Við skoðuðum lögin um gæsluvarðhald og þau eru skýr
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í gærmorgun að báðir mennirnir neiti sök. Þá sagði hann að kæra hafi verið lögð fram gegn konunum fyrir rangar sakagiftir.
Í viðtalinu við Vilhjálm kom enn fremur fram að Fréttablaðið hafi verið krafið um samtals 20 milljónir króna í miskabætur vegna fréttar sem birtist á forsíðu blaðsins á mánudagsmorgun, 10 milljónir á mann. Loks sagði Vilhjálmur að verið sé að íhuga málaferli gegn þeim sem deildu myndum af tveimur mönnum sem kærðir hafa verið fyrir nauðgun, nafngreindu þá eða kölluðu þá nauðgara á netinu.