Soffía Pálsdóttir, sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg, hafði samband við Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóra innlendrar dagskrárgerðar hjá RÚV og fór fram á að grín sem Hraðfréttir tóku upp þegar Skrekkur fór fram í vikunni yrði ekki notað. Þetta kom fram á Vísi í dag. Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata í Reykjavík, segir ritskoðunartilburði að ræða.
Skrekkur er hæfileikakeppni grunnskóla Reykjavíkurborgar. Samkvæmt frétt Vísis fóru Hraðfréttir á staðinn og spurðu börnin sem voru viðstödd keppnina: Hver er helsti óvinur landsbyggðarinnar? Og börnin hrópuðu á móti: Gísli Marteinn!
Sjá einnig: Reykjavíkurborg stöðvaði grín um Gísla Martein í Hraðfréttum
Halldór Auðar birtir færslu um málið á Facebook. Hann segir að skrifstofustjórinn hafi væntanlega verið að vinna innan þess ramma að Skrekkur sé viðburður á vegum Reykjavíkurborgar og börnin því þarna á forræði borgarinnar með tilheyrandi skyldum sem því fylgja.
„Það er alveg lögmætt sjónarhorn að þegar börnum er safnað saman eða safnast saman undir forræði opinberra aðila skuli gilda um það ákveðinn rammi sem verndar þau fyrir hinu og þessu utanaðkomandi áreiti. Segja má að slíkt teljist til réttinda barnanna og foreldranna, ekki síst þegar foreldrarnir hafa sterkar skoðanir á því í hvernig umhverfi þeir vilja að börnin séu í,“ segir hann.
Hann segist ekki ætla að fordæma embættismann fyrir að vinna innan setts ramma, þar sem hann viti ekki allar staðreyndir á borð við hvort foreldrar hafi kvartað yfir þessu og nákvæmlega þær formlegu reglur sem ákvörðunin kann að hafa verið tekin út frá.
„Að þessu sögðu eru Hraðfréttir einmitt þáttur sem vinnur markvisst í að brjóta ramma og ögra og er því þáttur sem fólk virðist annað hvort hafa mjög gaman af eða vera meinilla við — ég er sjálfur í fyrri hópnum,“ segir Halldór.
„Það er líka eitt að setja og fylgja eftir ákveðnum reglum um hvað fram fer á Skrekk og hvað utanaðkomandi aðilar mega gera þar – en annað að fara fram á eftir á að svona upptekið efni þar verði ekki sýnt. Það sem gerðist, gerðist, og það hvort þetta er sýnt eða ekki breytir ekki öllu um það. Þetta eru ritskoðunartilburðir, óháð því hvort fólki finnst þeir réttmætir eða ekki. Því má alveg halda til haga.“