Yfirvöld í Belgíu segja að árásir svipaðar þeim sem voru gerðar í París séu áformaðar í Brussel. Herinn er víða um borgina og jarðlestarkerfinu hefur verið lokað. Þá er fólki ráðlagt að forðast fjölfarna staði.
Tónleikum Agent Fresco sem áttu að fara fram í borginni hefur verið aflýst.
Anna Magdalena Helgadóttir býr og starfar í Brussel. Hún segir í samtali við Nútímann að yfirvöld hafi beðið fólk um að hætta að lifa eðlilegu lífi um sinn.
Það er verið er að aflýsa tónleikum og biðja fólk um að hætta að lifa eðlilega um sinn. Fólk kvartar aðallega yfir því að allt sé lokað en samt eru mjög fáir á ferli á götunum.
Hún segir að þetta komi sérstaklega illa niður á flóttafólki sem er fast á götunum eftir að flóttamannabúðum í fjármálahverfi borgarinnar var lokað.
Charles Michel forsætisráðherra sagði á fréttamannafundi að áreiðanlegar vísbendingar hefðu borist um að hópur fólks hefði áformað að fremja hryðjuverkárásir víðs vegar um höfuðborgina með skotvopnum og sprengiefnum, svipaðar þeim og framdar voru í París fyrir rétt rúmri viku.
Belgísk stjórnvöld hafa lýst yfir hæsta viðbúnaðarstigi í höfuðborginni vegna bráðrar og yfirvofandi hættu á hryðjuverkum. Þá er hæsta viðbúnaðarstig í gildi á alþjóðaflugvelli höfuðborgarinnar og í Vilvoorde, einum af útbæjum Brussel þar sem margir innflytjendur búa. Viðbúnaðurinn er minni annars staðar í landinu.