Auglýsing

Að gera hið rétta

Útópía. Ég sit á kaffihúsi á laugardagseftirmiðdegi. Fyrir utan gluggann gengur fólk hröðum skrefum í báðar áttir, flestir að flýta sér eitthvert, aðrir taka því rólegar og virða fyrir sér umhverfið. Taka myndir af húsum og veggjakroti. Taka myndir út og suður líkt og það sé þátttakendur í ljósmyndakeppni. Til skiptis setur fólk upp regnhlífar eða tekur þær niður. Það er ekki á hreinu hvort það muni rigna eða ekki. Það er óvissuástand. Ekkert alvarlegt þó, en það er viðvarandi grámi í loftinu og raki, eins og svo marga daga hér í Lundúnaborg.

Nánast hver einasti vegfarandi horfir inn um gluggann og starir. Starir í augu mín, starir á heita súkkulaðið í bollanum mínum, á bókina sem ég les, á skóna mína og fötin mín. En það er ekki eins og ég sé eitthvað sérstakur og því starir það á alla aðra sem sitja á kaffihúsinu. Starir í raun á allt sem fyrir augu ber. Tilfinningin er örugglega ekki ósvipuð því að vera dýr í dýragarði. Við þessar aðstæður er líkt og ég sé til sýnis. Eins og í raun allt í þessum heimi, allt er til sýnis. Í þessum sýndarveruleika.

Á svona stundu hugsa ég gjarnan: Hver erum við? Hvað erum við að gera hérna, á þessum stað og þessari stundu? Er einhver tilgangur með öllu saman? Mér líður eins og einhver sé að fylgjast með okkur. En eftirlitsmaðurinn á vakt er ekki allt fólkið fyrir utan gluggann. Heldur einhver annar. Einhver „æðri“. Einhver sem er kannski bara að fíflast í okkur. Eða kannski er hann að sinna einhverskonar verkefni. Skilaverkefni með lokafrest á næstunni. Eða kannski ekki, kannski er þetta eilífðarverkefni hjá viðkomandi. Og á eftir okkur, þegar við erum komin ofan í kistu og ofan í jörðina, þá mun sá hinn sami fylgjast með öllum hinum sem eftir eru. Jafnvel með syni mínum. Ber hann saman við mig. Ber hans líf saman við mitt líf. Er hann betri? Gerir hann hlutina betur? Hvaða hluti ber manni að gera?

Stundum hugsa ég, er ég að gera hið rétta? Er ég að gera það sem ég átti að gera þegar ég var settur hér á jörðina? Og í framhaldi af því, af hverju var ég settur á jörðina? Og hvað er að gera hið rétta? Og til að fara lengra með þessar hugleiðingar, hver er það á annað borð sem ákveður hvað sé rétt? Er það maður sjálfur eða samfélagið? Þegar einhver hagar sér öðruvísi en aðrir þá erum við fljót að dæma þá manneskju sem skrýtna. Sérstaka. Ekki eins og fólk er flest. En það er fín lína á milli þess að vera skrýtinn og fyrirlitinn eða að vera áhugaverður og elskaður. Það er hægt að taka ótal dæmi.

Ég las á dögunum afskaplega góða bók, að mínu mati, að nafni Widow Basquiat. Basquiat hagaði sér fjarri því sem við segjum að sé eðlilegt, hver svo sem eðlileg hegðun er á annað borð. Var hann elskaður af því að hann málaði fallegar myndir? Eða var hann dáður því að málverkin hans voru öðruvísi, jafnvel stórskrýtin. En hvað það var sem gerði það að verkum að hann var ekki dæmdur skrýtinn, óreglu- og utangarðsmaður er eitthvað sem ég er mjög forvitinn um. Og á það ekki bara við um Basquiat, heldur fjölmarga aðra í þessum heimi. Skapandi fólk kemur upp í hugann. Merkt fólk í mannkynssögunni.

Annað dæmi sem er aðeins nær mér er náungi sem situr á hverjum degi við fjölfarna götu hér í Shoreditch-hverfi í London. Hann situr þarna hvernig sem viðrar, með hundinn sinn hjá sér og málar myndir. Málar nýja mynd á hverjum degi. Er hann næsti Basquiat? Eða er hann bara skrýtinn heimilislaus náungi sem veit ekkert um list? Að mínu mati er staðan hans í dag þannig að hann er fjarri að nálgast þær hæðir sem Basquiat náði. En hver veit, kannski rambar Andy Warhol okkar tíma um þessa götu hér í East End og áður en ég veit af þá verður mynd af félaga mínum með Madonnu í partýi á vegum Karl Lagerfield í næsta Daily Mail. Mér finnst það þó frekar ólíklegt þar sem málverk hans eru iðulega svipuð, barnslegar myndir með hund í forgrunni. Ekki ósvipað þeim sem maður sér á veggjum Laufásborgar. Kannski verða slík málverk í tísku á næstunni. Uppboðshaldarar um alla veröld munu keppast um að bjóða þau upp og IKEA mun svo fjöldaframleiða fyrir meðaljóninn. Og þá verður veisla hjá mínum manni!

En þetta var útúrdúr. Aftur að því að gera hið rétta. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta ekki bara spurning um að gera það sem maður vill gera? Og svo get ég tekið þennan punkt lengra og spurt: Þarf maður að gera eitthvað yfirhöfuð? Getur maður ekki bara lifað lífinu, látið vikurnar, mánuðina líða og gert ekki neitt. Bara setið, staðið, legið, drukkið, borðað og sofið (hér þarf að sjálfsögðu að hugsa út fyrir okkar kapítalíska samfélag). Maður yrði sennilega dauðleiður á þessu á endanum, en ég held að það sé vert að prófa, þó að það væri ekki nema eins og eina helgi.

Orðið útópía kemur upp í hugann við þessar hugleiðingar. Hvað er útópía? Draumsýn um hinn fullkomna heim. Þegar ég hugsa um útópíu þá hugsa ég um náttúruna. Ég og náttúran. Sjálfbært líf. Að vera bóndi. Með góða nágranna. Sjálfum sér nógur. Ekki sjónvarp, ekki iphone, ekki internet. Í mesta lagi útvarp. Til að hlusta á tónlist og umræður. Hlusta á sögur. Og að vera utandyra. Hreina loftið, dýrin, árnar, vötnin, trén, fossarnir, fjöllin, já, fjöllin maður! Góður matur. Lamb, silungur, lax, salat, allt grænmetið, kjúklingur, rjúpur, gæs, önd. En ég ætla ekki að drepa öll dýrin! Við lifum í sátt og samlyndi með dýrunum. En maður þarf jú að lifa af. Taka bara nóg. Ekkert óhóf. Og rólegheit. Hugarró. Sátt með sjálfan sig og aðra og lífið. Engar áhyggjur, ekkert stress, engin læti.

Ég get ekki skilið við þennan pistil án þess að minnast á að í útópíunni þyrfti ég að hafa með mér lífsförunaut. Ekki myndi maður vilja ganga í gegnum lífið án þess. Og þá kem ég að mikilvægu viðfangsefni. Ástin. Og hvað með ástina? Er hægt að elska eina manneskju út lífið, vera með henni, lifa með henni skilyrðislaust að eilífu? Nei, varla skilyrðislaust, því að við setjum alltaf skilyrði. Ekkert sérstaklega mikið í upphafi, þá er ástin frjáls og engir vegatálmar. Við erum í sparibúningnum. Ekkert prump og rop, ekkert nöldur, bara ást og hamingja, bros og hlátur. Stöku rifrildi hér og þar, aðallega útaf afbrýðissemi. En það eru bara smámunir.

En einn maki til æviloka. Erum við gerð fyrir það? Ég segi já, ég trúi á ástina. Kannski er það af því að ég er svo vel giftur. Ég þarf að klípa mig oft á dag til að trúa því að mig sé ekki að dreyma og þegar ég hugsa til þess hversu óendanlega heppinn ég var að hitta konuna mína. Hvað hef ég gert til að eiga skilið þennan stóra lottóvinning? Réttur maður á réttum stað? Tilviljun? Örlögin? Já, stórt er spurt! Takk fyrir mig.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing