Leitað verður til vinnustaðarsálfræðings til að reyna að leysa úr deilum innan borgarstjórnarflokks Vinstri grænna. Það kemur í kjölfarið á því að Sóley Tómasdóttir, oddviti flokksins í Reykjavík, setti Líf Magneudóttur varaborgarfulltrúa af sem formann mannréttindaráðs borgarinnar og settist sjálf í sæti formanns. Þetta kemur fram á Eyjunni.
Á Eyjunni kemur einnig fram að VG logi stafnanna á milli og að Sóley hafi tekið ákvörðun um að setja Líf af í síðustu viku. Ekki var full eining um aðgerðina í borgarstjórnarflokknum. Þá kemur fram að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hafi verið andvíg ákvörðuninni og reynt að tala Sóley ofan af henni án árangurs.
Líf hafði gegnt formennsku í mannréttindaráði borgarinnar um nokkurt skeið. Hún var skipuð formaður ráðsins þegar meirihluti var myndaður í borginni í júní 2014 en á sama tíma tók Sóley við hlutverki forseta borgastjórnar.
Tillagan var samþykkt í gærkvöldi. Sex sátu hjá í atkvæðagreiðslunni: Júlíus Vífill Ingvarsson og Kjartan Magnússon, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Jóna Björg Sætran í Framsókn, Halldór Auðar Svansson Pírati og Elsa Yeoman í Bjartri framtíð.