Harður árekstur varð í Ljósavatnsskarði eftir hádegi þann 24. nóvember síðastliðinn þar sem tveir fólksbílar skullu saman. Tveir ferðamenn voru í öðrum bílnum en ökumaðurinn var einn í hinum. Báðir bílar eru gjörónýtir og eldur kom upp í öðrum þeirra.
Myndband sem náðist af slysinu hefur vakið mikla athygli. Sæmundur Bjarni Sæmundsson lýsir því á Facebook hvernig, Sæmundur Bjarnason, faðir hans kom fyrstur að slysinu og kom fólkinu til hjálpar.
„Hann sá strax hve alvarlegt slysið var og byrjaði strax á því að skipuleggja aðgerðir,“ segir hann.
Eftir slysið kom upp eldur í öðrum bílnum en ökumaðurinn var illa slasaður og gat ekki komist frá bílnum af sjálfsdáðum og sem betur fer var pabbi kominn á þeim tíma og gat dregið manninn frá áður en bíllinn varð alelda.
Í hinum bílnum var einnig mjög slasaður einstaklingur sem kvartaði undan verkjum í baki. „Þar sem ekki þótti hætta stafa af því að halda kyrru fyrir í bílnum tók pabbi þá rökréttu ákvörðun um að halda þeim einstakling kyrrum og stöðugum,“ segir Sæmundur Bjarni,
„Af þeim tveim sem slösuðust illa er annar einstaklingurinn útskrifaður af sjúkrahúsi og hinn er kominn úr lífshættu eftir að hafa gengist undir stórar aðgerðir. Fagaðilar vilja meina að þessir einstaklingar séu stálheppnir að hafa lifað slysið af. Ég er svo stoltur af þér elsku pabbi, þú ert algjör hetja!“