Tónlistarkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir hefur stofnað Facebook-hópinn Góða systir á Facebook. Hópurinn hvetur til vitundarvakningar um hvernig konur tala um aðrar konur. „Við eigum að vera systur og standa saman og sýna litlum og stórum konum fordæmi með því,“ segir í lýsingunni á hópnum.
Nú þegar eru rúmlega 20 þúsund konur skráðar í hópinn en í samtali við Pjatt.is segir Þórunn að hugmyndin hafi komið þegar hún lá andvaka eftir kvöldstund með stóru systur sinni.
Ég hugsaði mikið um hvað það er gott að eiga góðar konur að og hvað það skiptir miklu máli að standa vörð um það.
Þórunn segir í samtali við Pjatt að sér hafi alltaf þótt óþægilegt að hlusta á og taka þátt í illu umtali um annað fólk. „Sérstaklega í stórum hópi eins og samkvæmi þar sem allir eru að tala um eina manneskju sem er ekki á staðnum,“ segir hún.
„Eins og allir aðrir hef ég þó alveg gerst sek um að taka þátt í slíku en það lætur manni ekki líða vel. Er maður að segja eitthvað slæmt um einhvern annan til að upphefja sjálfan sig? Er þetta út af óöryggi? Hræðslu? Öfund? Það er auðvitað alltí lagi að hafa skoðanir á hlutum og fólki en það er líka gott að staldra við og sjá hvaðan hún kemur.“
Þórunn segir á Pjatt að hún vilji vera falleg fyrirmynd fyrir dóttur sína, Freyju Sóley.